Háskóli Íslands

Safneign-Þorvaldssafn

Málverk eftir Guðmundu Andrésdóttur 1998Stór hluti safneignar eru abstraktverk sem safnið hefur fengið að gjöf en safnið kaupir einnig árlega inn framsækna nútímalist.

Um þrír fjórði hluti safneignar eða 1400 verk eru eftir Þorvald Skúlason ; 101 olíumálverk og um 1300 teikningar, vatnslitamyndir, blekmyndir og klippimyndir. Mynda þau sérstaka deild innan safnsins, Þorvaldssafn. Verkin spanna allan feril listamannsins, frá árinu 1923 til dauðadags 1984 sem þýðir að Listasafn Háskóla Íslands geymir stærsta og heildstæðasta safn verka Þorvalds í heiminum.  Þá á safnið tæplega 100 verk úr dánargjöf Guðmundu Andrésdóttur listmálara og fjölmörg mikilvæg verk eftir aðra frumkvöðla abstraktlistar svo sem Hörð Ágústsson og Valtý Pétursson.

Listaverkagjafir mynda uppistöðu safneignar Listasafns Háskóla Íslands og ber safnið ýmis merki einkasafnarans. Ber þar fyrst að telja stofngjöf Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur árið 1980. Þau Sverrir og Ingibjörg tóku snemma á hjúskaparárum sínum að kaupa listaverk og voru um áratugaskeið meðal stærstu listaverkasafnara landsins. Þau lögðu sig einkum eftir að safna verkum abstraktkynslóðarinnar svokölluðu og ber þar fremstan að nefna Þorvald Skúlason. Árið 1995 gaf Sverrir listasafninu 101 verk, þar af 75 eftir Þorvald Skúlason,

til minningar um Ingibjörgu konu hans. Sverrir lést árið 2002 og í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Listasafninu 894 teikningum eftir Þorvald Skúlasonar. Um að ræða skissur að stærri verkum, vatnslitamyndir, gvassmyndir, klippimyndir, grafíkmyndir og teiknibækur listamannsins. Verkin varpa mikilvægu ljósi á vinnuaðferðir Þorvalds og feril verka hans og eru ómetanleg heimild fyrir þá sem leggja stund á rannsóknir í íslenskri listasögu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is