Háskóli Íslands

Stofnskrá

Stofnskrá 1980

1. gr.
Stofnað er listasafn Háskóla Íslands með listaverkagjöf hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Sverris Sigurðssonar, Sævargörðum 1, Seltjarnarnesi.

2. gr.
Stofngjöf listasafnsins er 115 myndir eftir Þorvald Skúlason og 25 myndir eftir aðra íslenska höfunda, sbr. meðfylgjandi skrá. Hvorki má selja þessar myndir né aðrar sem safninu kunna að verða gefnar. Þau málverk Þorvalds Skúlasonar listmálara, er safnið fær upphaflega að gjöf og kann síðar að eignast, skulu mynda sérstaka deild í safninu, er bera skal nafn listamannsins

3. gr.
Til listasafnsins skal Háskóli Íslands árlega leggja 1% þeirrar fjárhæðar, sem varið er til nýbygginga á vegum skólans, í fyrsta sinn árið 1980. Heimilt skal safninu að veita viðtöku gjöfum, hvort sem er í formi listaverka eða annarra fjármuna. Tekjum safnsins skal varið til varðveislu þess og viðhalds og kaupa á listaverkum.

4. gr.
Fyrst í stað verður safninu ætlaður staður í næstu nýbyggingu á háskólalóð, svonefndu Hugvísindahúsi. Þar skal hluti safnsins að jafnaði aðgengilegur fyrir almenning, og þeir, sem leggja stund á rannsóknir í íslenskri myndlistarsögu, skulu hafa aðgang að því eftir því sem við verður komið. Einnig er í húsinu gert ráð fyrir geymslu fyrir þann hluta safnsins, sem ekki er til sýnis hverju sinni.

5. gr.
Stjórn Listasafns Háskóla Íslands skipa þrír menn, sem kosnir eru af háskólaráði til fjögurra ára. Kosning skal fara fram í janúarmánuði, í fyrsta sinn í janúar 1980. Stjórnin skiptir með sér verkum. Hlutverk stjórnarinnar er að hafa umsjón með eignum safnsins og fjárreiðum í samráði við háskólayfirvöld og taka ákvarðanir, er snerta rekstur þess og eflingu. Skal stjórnin í lok hvers árs gera háskólaráði grein fyrir starfsemi safnsins og viðgangi þess

Samþykkt af háskólaráði og staðfest af forseta Íslands 9. apríl 1980.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is