Háskóli Íslands

Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands

Við safnið er starfræktur rannsóknarsjóður, Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands, sem stofnaður var árið 1999 og ætlað er að veita fræðimönnum styrki til rannsókna ,,á sviði íslenskrar myndlistar, myndlistarsögu og forvörslu myndverka að fornu og nýju, svo og til birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna, samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins." Auglýst er eftir umsóknum úr sjóðnum að jafnaði 2. hvert ár.

Hugmyndina að rannsóknarsjóðnum átti Sverrir Sigurðsson og var hann stofnaður á níræðisafmæli Sverris, 10. júní 1999. Jafnframt agði hann sjóðnum til veglegt stofnframlag. Veitt var í fyrsta skipti úr styrktarsjóðnum árið 2000 og hlaut Ólafur Ingi Ólafsson málverkaforvörður styrk fyrir áralangar rannsóknir sínar á fölsuðum íslenskum málverkum.

Samtals hafa sautján aðilar fengið styrki úr sjóðnum; langflestir sjálfstætt starfandi fræðimenn, en einnig forverðir og eitt fagfélag myndlistarmanna. Að sama skapi hafa rannsóknarefnin verið af ýmsum toga; íslensk raflist, þ.e. skjálist, netlist og hljóðlist, saga Grafíkfélagsins, leikmyndlist á Íslandi, íslenskir alþýðumyndhöggvarar, hönnun gagnagrunns til skráningar á listaverkum sem eru ekki í eigu safna, tengsl Kjarvals við danska og evrópska samtímalist á Kaupmannahafnarárunum 1912-22, vinnsla heimildarefnis fyrir sjónvarp um íslenska samtímamyndlist, rannsóknir á landslagi og rými í verkum Sigurðar Guðmundssonar  í samhengi við heimspekikenningar Heidegger og Maurice Merleu-Ponty, saga Myndlistar-og handíðaskóla Íslands, rannsókn á frumheimildum um Júliönu Sveinsdóttur í Danmörku, breytingar á nafnskriftum eða höfundarmerkingum frumherja íslenskrar myndlistar, áhrif fúnksjónalisma og norrænnar hönnunar á íslenska hönnun og kenningafræðileg úttekt á stöðu samtímalistar á Íslandi í ljósi alþjóðlegra kenninga um list- svo dæmi séu tekin.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is